Viðskipti innlent

Glitnir sækir 500 milljónir dala

Glitnir hefur gefið út í Bandaríkjunum skuldabréf fyrir 500 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 33,5 milljörðum íslenskra króna. Útgáfan fór fram síðasta föstudag, en skuldabréfin eru á gjalddaga í janúar árið 2011. Kjör bréfanna eru 44 punktum yfir bandarískum millibankavöxtum (LIBOR).

Um er að ræða fyrstu opinberu skuldabréfaútgáfu bankans síðan í febrúar þar sem ekki er um að ræða víkjandi útgáfu. „Á þessu ári hefur Glitnir gefið út tvær opinberar víkjandi útgáfur til styrkingar á eiginfjárstöðu bankans en meirihluti annarrar fjármögnunar hefur verið í formi einkaútgáfna. Í lok ágúst tilkynnti Glitnir að bankinn hefði tryggt endurfjármögnun fyrir árið 2007. Mikill áhugi hefur verið undanfarið meðal bandarískra fagfjárfesta á skuldabréfum bankans og mun útgáfan nú styðja við frekari vöxt bankans á næsta ári sem og að viðhalda sterkri lausafjárstöðu hans,“ segir í tilkynningu bankans.

Útgáfan nú er jafnframt fyrsta skuldabréfaútgáfa Glitnis undir nýjum MTN rammasamningi bankans um skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum. JP Morgan Securities hafði umsjón með gerð rammasamningsins fyrir Glitni, en umsjón með útgáfunni nú höfðu ásamt JP Morgan, Merrill Lynch og Wachovia Capital Markets.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×