Innlent

Skaðræðiströppur á brúnni

Göngubrúin frá Sogavegi yfir í Skeifuna er ófær eða illa fær fötluðum á rafskutlum, fólki í hjólastólum og fólki með barnavagna og kerrur. Þegar komið er upp á brúna þurfa vegfarendur að komast upp snarbrattar tröppur.

Halla Arnardóttir býr í Smá-íbúðahverfinu, nánast við hlið Hagkaupa í Skeifunni. Hún á stundum erindi í Hagkaup og aðrar verslanir í Skeifunni og þarf að komast yfir brúna með barnavagn. Hún segir tröppurnar algjörar „skaðræðiströppur".

„Ef ég er með barnavagninn þarf ég að taka á mig krók og labba upp á Grensásveg því ég kemst ekki upp tröppurnar með hann," segir hún.

Halla hefur rætt um tröppurnar við aðra vegfarendur sem vilja nota brúna, gamalt fólk með innkaupakerrur, fólk í hjólastólum og á rafskutlum og dagmæður með kerrur og vagna. Allt er þetta fólk sammála um að það kemst illa eða ekki um tröppurnar. Ramparnir dugi ekki nógu vel.

„Ef fólk er með barnavagn á leið niður tröppurnar þarf þrjá til, einn heldur á barninu og tveir halda á vagninum niður," segir Halla.

Ólafur Stefánsson, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að þetta hafi verið skoðað en ekki fundist ásættanleg lausn. Ramparnir að brúnni hafi verið látnir duga. Það lengi leiðina að brúnni en eigi að teljast fullnægjandi fyrir fatlaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×