Innlent

Aðstoð við sveitir landsins aukin

„Þetta var afar athyglisverð ferð og það var einstaklega ánægjulegt að kynnast starfsemi og verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar í Mósambík," segir Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Suður-Afríku, en hún kynnti sér á dögunum starfsemi ÞSSÍ í Mósambík.

Sigríður Dúna segir að ekki hafi síður verið fróðlegt að kynnast landi og þjóð og henni sé sérlega minnisstæð ferð norður til Inhambane.

„Í Inhambane gafst okkur færi á að kynnast aðstæðum á vettvangi langt inni í skógum Mósambík og verða vitni að því hvernig þróunarverkefni hefur sig til flugs," segir Sigríður Dúna.

Að sögn Mörtu Einarsdóttur, verkefnisstjóra ÞSSÍ í Mósambík, er stefna ríkisstjórnar landsins að auka aðstoð við sveitir landsins og leggja áherslu á landbúnað en 70 prósent landsmanna búa í sveitum og hafa einkum lífsviðurværi sitt af landbúnaði. Markmið kvenna- og félagsmálaráðuneytisins er að aðstoða konur og aðra hópa sem eiga um sárt að binda við að auka landbúnaðarframleiðslu og ráðstöfunartekjur.

Marta segir að verkefnið í Inhambane snúi því einkum að ekkjum, einstæðum mæðrum og fjölskyldum með munaðarlaus börn á framfæri.

Í tilefni af komu Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur sendiherra og starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar til Guissembe voru grasrótarsamtökin formlega stofnuð með hátíðardagskrá, dansi, ræðuhöldum og vígsluathöfn. Allir þorpsbúar tóku þátt í dagskránni og sýndu einstaka gestrisni að hætti heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×