Innlent

Segir seinaganginn ótækan

fyrirhugað hjúkrunarheimili Heimilið á að rísa í Mörkinni, nánar tiltekið við Suðurlandsbraut 66, og mun rúma 110 manns.
fyrirhugað hjúkrunarheimili Heimilið á að rísa í Mörkinni, nánar tiltekið við Suðurlandsbraut 66, og mun rúma 110 manns. mynd/yrki arkitektar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri gagnrýnir heilbrigðisráðuneytið fyrir seinagang við hönnun, útboð og byggingu nýs hjúkrunarheimilis í borginni. Hann segir að hjúkrunarheimilið í Mörkinni hafi verið í „endalausum viðræðum“ hjá ríki og borg og ekki sé enn búið að bjóða út verkið.

Rúmlega fjögur ár eru liðin frá því að viljayfirlýsing um byggingu hjúkrunarheimilis í Mörkinni var undirrituð. „Það er ótækt út af fyrir sig hve seint og illa hefur gengið að undirbúa útboð þessa heimilis,“ segir borgarstjóri. Engu máli skipti hvar hjúkrunarheimili verði byggt. Mestu skipti að það verði reist.

Stefnt er að því að bjóða út jarðvinnu vegna hjúkrunarheimilisins snemma á næsta ári og hefjast framkvæmdir í kjölfarið. Leifur Benediktsson, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, segir að hönnun standi yfir og að henni ljúki fljótlega eftir áramót. Heimilið verði tekið í notkun árið 2008.

Fyrirhugað hjúkrunarheimili verður tæplega átta þúsund fermetrar að stærð og mun rúma hundrað og tíu heimilismenn. Byggingin verður á fjórum hæðum og hálfri betur. Leifur vill ekki gefa upp kostnaðartölu, segir fyrstu kostnaðaráætlun hafa verið of háa og hana verði að lækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×