Erlent

Hverjir rændu hverjum og hvers vegna ?

Frá Bagdad
MYND/AP

Ringulreiðin í Írak er slík að stjórnvöld virðast ekki hafa hugmynd um hversu mörgum mönnum var rænt úr menntamálaráðuneyti landsins í gær, né hversu margra er enn saknað. Menntamálaráðherrann er hættur þáttöku í ríkisstjórn Íraks, þartil gíslunum hefur verið sleppt.

Jafnvel miðað við ástandið í Írak var atburðarás gærdagsins furðuleg. Tugir manna í lögreglubúningum komu á fullri ferð, á pallbílum, að menntamálaráðuneytinu. Meðan lögreglumenn sem áttu að gæta öryggis þar horfðu á, þutu gervilöggurnar inn í húsið og drógu þaðan út tugi karlmanna. Þeim var hlaðið á pallbílanna sem svo óku beina leið til Sadr borgar, sem er höfuðvígi sjía múslima.

Menntamálaráðherrann sem er súnní múslimi segir að um eitthundrað starfsmönnum og nemendum hafi verið rænt og um áttatíu sé enn saknað. Talsmaður ríkisstjórnarinnar segir hinsvegar að um fjörutíu hafi verið rænt og þrjátíu og sjö hafi þegar verið látnir lausir.

Reuters fréttastofan er að kanna þetta mál og segir að fjórir af þeim sem hún viti til að sé enn saknað séu allir súnní múslimar. Sá eini sem fréttastofan viti að hafi verið látinn laus er háttsettur sjía múslimi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×