Innlent

Gæslan ekki á leið á Völlinn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra MYND/gva

Ekki er fyrirhugað að flytja Landhelgisgæsluna frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar, að sögn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra.

Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, tók málið upp utan dagskrár á Alþingi í fyrradag og sagði tilvalið að nýta gömul mannvirki varnarliðsins undir starfsemi Landhelgisgæslunnar. Spurði hann ráðherra hvort til greina kæmi að færa starfsemi hennar að hluta til eða að öllu leyti á Suðurnes og hvort hann teldi að húsakynni á varnarsvæðinu uppfylltu kröfur Landhelgisgæslunnar.

Ráðherra sagðist ekki efast um að tiltekin bygging gæti hentað ágætlega undir starfsemina en að flutningur væri ekki í bígerð enda ekki forgangsmál að flytja starfsemina frá Reykjavíkurflugvelli eða brjóta hana upp. Það væri seinni tíma mál. Vildi hann þó ekki útiloka flutning flugdeildarinnar til Keflavíkur en sagði að slíkt kallaði á fjölgun starfsmanna.

Björn sagði að stækka þyrfti skrifstofuhúsnæði Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli vegna stærri flugflota og að fram færu viðræður við Flugmálastjórn um það. Kvað hann höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar nýlega fluttar í Skógarhlíð, þar sem þær ættu vel heima með öðrum sem vinna að viðbragðs- og neyðarþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×