Innlent

Gullborg Binna í Gröf rifin

Gullborgin í Daníelsslippi Hópur manna vinnur að því að bjarga þessu fengsæla skipi, Binna í Gröf, frá niðurrifi.
fréttablaðið/anton brink
Gullborgin í Daníelsslippi Hópur manna vinnur að því að bjarga þessu fengsæla skipi, Binna í Gröf, frá niðurrifi. fréttablaðið/anton brink

Hið sögufræga skip Gullborgin verður að öllu óbreyttu rifið á næstu dögum, segir Gunnar Richter, eigandi Daníelsslipps í Reykjavíkurhöfn. Gullborgin hefur staðið afskipt í slippnum frá því í byrjun ágúst í fyrra.

Gunnar á í viðræðum við yfirmenn Faxaflóahafna um hvenær Gullborgin verður rifin. Hann segir að ef af því verði muni beltagrafa mola hana niður.

Gullborgin er þekkt fyrir að hafa verið mesta happaskip hins þekkta skipstjóra Binna í Gröf úr Vestmannaeyjum, sem varð aflakóngur í Eyjum sex vertíðir í röð eftir að hann tók við formennsku á skipinu árið 1954.

Árni Johnsen, Eyjamaður og fyrrverandi þingmaður, vinnur nú að því ásamt hópi manna, undir forustu Gunnars Marels Eggertssonar skipstjóra, að bjarga Gullborginni frá því að lenda á haugunum. Árni segir að það væri synd ef skipið yrði rifið því það sé sögufrægt og eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar. Að sögn Árna hefur hópurinn sett sig í samband við yfirmenn hjá Faxaflóahöfnum sem einnig vilja bjarga Gullborginni. Árni segir að ef þeim tekst að bjarga skipinu verði það flutt til Reykjanesbæjar þar sem það verður gert upp.

Það skýrist endanlega í næstu viku hvort skipið verður rifið eða ekki, segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×