Innlent

Segir að efla þurfi ákæruvald

Helgi Jóhannesson Vill að ákæruvaldið verði eflt.
Helgi Jóhannesson Vill að ákæruvaldið verði eflt. MYND/gva

Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir augljóslega þurfa að efla starf ákæruvaldsins með mannafli og peningum en hafnar alfarið að íslenskir dómstólar geti ekki tekið á stórum málum. „Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það viðhorf hefur komið fram í umræðuna, að dómstólarnir geti ekki tekið á stórum málum, því það eru engin merki um að svo sé. En miðað við aukningu á stórum og flóknum málum í kerfinu er augljóst að ekki eru nægir peningar, né mannafl, sem veldur því að rannsókn á þessum málum tekur alltof langan tíma. Það er algjörlega óviðunandi staða að menn þurfi að liggja undir grun árum saman, eins og dæmi eru um."

Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, hélt því fram í Fréttablaðinu í gær að „dómstólar, líkt og kerfið á öllum stigum", væru ekki „búnir til þess að taka á stórum málum eins og Baugsmálinu".

Hann sagði það jafnframt óþolandi að menn gætu fengið misjafna málsmeðferð eftir efnahag. Vitnaði hann til Baugsmálsins í því samhengi.

Arnar kallaði eftir „viðbrögðum yfirvalda þessa lands" vegna þeirrar þróunar.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir íslenska dómstóla vel ráða við stór og flókin efnahagsbrotamál. „Ég tel það fráleitt að íslenska dómskerfið ráði ekki við efnahagsbrotamál. Þvert á móti finnst mér reynslan frá hinu svokallaða Baugsmáli sýna að dómstólar ráði vel við stór og flókin mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×