Viðskipti innlent

Nýtt verðmat á Alfesca

Greiningardeild Landsbankans hefur gefið út nýtt verðmat á Alfesca. Í verðmatinu segir að umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir Alfesca undanfarið hafi borið árangur. Reksturinn sé á réttri leið og er gert ráð fyrir rekstrarbata næstu árin. Greiningardeildin mælir því með að fjárfestar haldi í bréf sín í félaginu.

Þá segir greiningardeildin að stjórnendur Alfesca stefni að því að auka veltu félagsins á næstu árum bæði með innri og ytri vexti. Hugmyndir séu um að nota styrk Labeyrie vörumerkisins og reynslu stjórnenda til að sækja inn á nýja landfræðilega markaði auk kaupa á fyrirtækjum, sem styrki núverandi rekstur.

Deildin bendir á að verð á reyktum laxi hafi verið óvenju hátt undanfarna mánuði en ríflega 40 prósent af veltu félagsins byggist á sölu á honum. Það hefur dregið úr framlegð félagsins. Verðið hefur hins vegar lækkað um 30 prósent síðustu vikurnar og séu vísbendingar um enn frekari verðlækkanir.

Greiningardeildin metur Alfesca á 29 milljarða krónur en það gefur verðmatsgengið 4,95 krónur á hlut. Vænt verð (e. target price) er 5,50 krónur á hlut sem samsvarar 8,6 prósenta væntri ávöxtun næstu 12 mánuði. Greiningardeildin mælir því með að fjárfestar haldi bréfum sínum í

félaginu.

Gengi Alfesca var 5,12 krónur á hlut við lokun Kauphallar Íslands í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×