Innlent

Boðar eflingu sveitastjórnarstigsins í landinu

Nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga boðar eflingu sveitastjórnastigsins í landinu. Í fyrsta sinn í sögu sambandsins var kosið á milli formannsefna.

Viðureignin var nánast hnífjöfn en lauk með sigri Vestfirðings gegn Austfirðingi. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Sjálfstæðismaður er nýr formaður. Hann hlaut 68 atkvæði í kosningu en Smári Geirsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og Samfylkingarmaður, hlaut 64.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík og formaður sambandsins, stígur nú af stóli eftir 16 ára valdasetu. Halldór segist ákveðinn í að efla sambandið en tillaga kom fram á landsfundi sambandsins sem lauk í dag, um að skipta sveitarfélögum upp í lítil og stærri. Hann telur það vera óráð og mun staða hans sem landsbyggðarmanns skipta máli í formennskunni.

Halldór sagði í samtali við NFS að honum skyldist að aldrei áður hefði verið formaður annar staðar en af höfuðborgarsvæðinu, þannig að það eitt mun breyta miklu. Það komi til með að breyta ásýnd sambandsins að einhverju leiti og að sjálfsögðu vinnubrögðum þess en hann hyggst ekki sinna starfinu með starfi bæjarstjóra. Hann ætli ekki að sinna öðrum aukastörfum eins og hann hafi gert mjög á vettvangi sveitastjórna. Þetta er það stórt starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×