Innlent

Meginástæða hás vöruverðs úrelt landbúnaðarkerfi

Mynd/Hrönn Axelsdóttir

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir matvælaskýrslu forsætisráðherra ekki fela í sér syndakvittun, þótt stjórnarformaður Baugs lesi úr henni að meginástæðan fyrir háu vöruverði sé úrelt landbúnaðarkerfi, ekki verslunin. Áhyggjur af fákeppni standi óhaggaðar og gripið verði til aðgerða til að bregðast við henni.



Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs Group skrifar harðorða grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann segir að svarti pétur hins háa matvælaverðs sé fundinn. Hann hafi ekki fundist hjá Baugi heldur í fylgsnum stjórnmálamanna sem staðið hafi vörð um úrelt landbúnaðarkerfi á undanförnum árum og áratugum. Greinin er skrifuð í tilefni af skýrslu matvælanefndar þar sem kemur fram að verndartollar á búvörum séu ein helsta ástæða hás matvælaverðs á Íslandi.

Hreinn er einkar hvass í garð Davíðs Oddssonar og einnig Össurar Skarphéðinssonar sem hafi fullyrt á alþingi árið 2002 að stóru verslunarkeðjurnar hefðu keyrt upp verð á matvælum. Hann rekur að í kjölfar bolludagsmálsins svokallaða hafi hann bent á þá fákeppni sem hér væri í framleiðslu helstu landbúnaðarafurða sem gerði mönnum einkar erfitt að bregðast við. Málefnaleg umræða um matarverð sé óhugsandi ef menn hafi ekki kjark til að horfast í augu við afleiðingar þess landbúnaðarkerfis sem hér sé við lýði.

Forsætisráðherra ætlar ekki að tjá sig um skýrsluna fyrr en eftir ríkisstjórnarfund á morgun. Páll Gunnar Pálsson segir hátt verð hinsvegar eiga sér orsakir bæði hjá opinberum aðilum og fákeppni á markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×