Innlent

Lítið selst af sumarvörum

MYND/Heiða Helgadóttir

Tíðarfarið í sumar hefur haft áhrif á verslun. Kaupmenn sitja uppi með sumarkjóla og sandala enda hafa útsölur á sumarfatnaði hafist mun fyrr en venjulega. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir veðurfarið vera einn sterkasta áhrifaþáttinn varðandi verslun. Þetta viti allir verslunarmenn og því hafi þeim hjá samtökunum dottið í hug að hringja á nokkra staði og heyra hljóðið í kaupmönnum.

Í ljós kom að sala á árstíðabundnum vörum hefur verið einstaklega dræm. Léttur sumarfatnaður og sandalar hafa selst illa og helst fólki sem er á leið til útlanda. Fólk hefur líka ferðast minna innanlands en fyrri sumur. Lítil sala hefur verið á viðlegubúnaði, sem og grillkjöti og rauðvíni. Verslunarfólk á landsbyggðinni þjónustar einnig færra ferðafólk en venjulega.

Landsmenn virðast því halda sig heima við og varla hætta sér út á svalir að grilla. Á meðan tilkynna ferðaskrifstofur um sprengingu í sölu sólarlandaferða. Kortaverslun hefur aukist milli ára og velta í verslun virðist vera svipuð eða jafnvel meiri en í fyrra. Sigurður telur verslunina hafa flust að einhverju leyti til útlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×