Innlent

Virðist hafa hætt sjúkraflugi of snemma

Frá Bíldudal.
Frá Bíldudal. M/Hilmar Guðmundsson

Landsflug virðist hafa hætt sjúkraflugsþjónustu sinni á Vestfjörðum of snemma og Mýflug tekið of seint við henni með þeim afleiðingum að óeðlilega langan tíma tók að útvega sjúkraflugvél frá Flugfélagi Íslands á nýársnótt.

Samkvæmt athugun NFS í morugn var vélinni frá Landsflugi flogið fra Ísafirði á hádegi á gamlársdag, en samningur félagsins við heilbrigðisráðuneytið rann ekki út fyrr en á miðnætti.

Mýflugsvélin, sem átti að taka við, lenti hins vegar ekki fyrr en síðdegis í gær á Ísafjarðarflugvelli og fannst hún þar í flugskýli í morgun vegna fyrirspurnar NFS.

Eins og fram kom í fréttum tók óeðlilega langan tíma að útvega sjúkraflugvél til Bíldudals á nýársnótt eftir að ungur maður hafði fengið flugeld í augað. Sú töf skýrist af því að nokkurn tíma tók að ræsa út flugvél frá Flugfélagi Íslands þar sem hvorki Mýflug né Landsflug höfðu vélar tiltækar.

Hún hafði ekki verið undirbúin til langflugs og þurfti því að taka eldsneyti á Bíldudal sem lengdi viðdvölina þar. Skömmu eftir flugtak þurfti hún svo að lenda aftur vegna eldsneytisleka, sem tókst þó að komast fyrir í snatri og fara aftur á loft.

Sjúklingurinn komst því ekki undir læknishendur í Reykjavík fyrr en undir klukkan fimm á nýársmorgun, en slysið varð um miðnætti. Lögreglan á Patreksfirði er að taka saman öll gögn málsins og ætla sveitarstjórnarmenn vestra að því búnu að ræða málið við heilbrigðisyfirvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×