Innlent

139 hlauparar lögðu af stað úr Landmannalaugum

Landmannalaugum
Landmannalaugum MYND/Örn Þórarinsson

Það voru 139 ofurhugar sem lögðu af stað úr Landmannalaugum í morgun með það að markmiði að hlaupa Laugaveginn inn í Þórsmörk, um 55 km leið. Þrátt fyrir slæma veðurspá var veðrið sæmilegt í morgun og meira að segja sólarglæta.

Um 15 mínútur yfir þrjú í dag voru 14 hlauparar komnir í mark. Sandarnir reyndust þeim erfiðir þar sem vindurinn var frekar sterkur í fangið en þátttakendur voru engu að síður mjög ánægðir með hlaupið. Einn enskur hlaupari var svo ánægður að hann vildi helst halda áfram og lét hin fleygu orð falla "I love it!".

Fyrsti karl í mark var Sigurður Þórarinsson, en hann hljóp á 5 klukkustundum, 26 mínútum og 5 sekúndum. Fyrsta konan í mark var Jackie Bale frá Bretlandi, á 6 tímum, 16 mínútum og 6 sekúndum. Sigurtímarnir í ár voru ekki nærri því að slá brautarmet enda buðu aðstæður ekki uppá það. Jackie Bale var þó mjög nálægt sínum besta tíma 6 tímum og 44 sekúndum, sem er einnig þriðji besti tími kvenna í 10 ára sögu hlaupsins.

Að minnsta kosti sex hlauparar ákváðu að hætta keppni í Emstrum, þreyttir og kaldir eftir rokið og rigninguna. Rúta er nú á leiðinni í Emstur til að sækja þessa hlaupara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×