Orðrómurinn sem hefur verið á kreiki síðustu daga um að Indiana Pacers og LA Clippers hafi ætlað að skiptast á leikmönnum var staðfestur í nótt, þegar í ljós kom að Indiana bakkaði út úr því að fá hinn meidda Corey Maggette í skiptum fyrir vandræðagemlinginn Ron Artest.
Maggette hefur lítið geta spilað í vetur vegna fótameiðsla og þótti forráðamönnum Indiana ekki hyggilegt að fá til sín mann sem væri það stórt spurningamerki. Það hvað liðið var þó komið langt áleiðis í samningaviðræðum við Clippers sýnir þó glögglega að liðinu er mikið í mun að losna við Artest hið snarasta.
Artest var á meðal áhorfenda á leik LA Lakers og Cleveland Cavaliers í gærkvöldi og neitaði ekki að hann hefði spjallað við forráðamenn beggja liðanna í Los Angeles.