Innlent

Ætíð ný njósnaforrit í umferð

Stöðugur straumur nýrra eða endurbættra njósnaforrita er í umferð á hverjum tíma að sögn Friðriks Skúlasonar tölvufræðings. Hann segir svokallaða auðkennislykla, sem eru samstarfsverkefni allra banka landsins og verða teknir í almenna notkun hér á landi í haust, vera mikilvæga vörn gegn heimabankaþjófnaði.

Hafin var veruleg efling varna gegn þjófnuðum úr heimabönkum í fyrrahaust eftir að ljóst varð að þjófar voru farnir að millifæra fjárhæðir út af reikningum fólks. Nú er allstór hópur viðskiptavina bankanna með auðkennislykla til prófunar, sem eru þannig úr garði gerðir að þeir gefa eiganda sínum á augabragði nýtt auðkennisnúmer í hvert skipti sem hann skráir sig inn í heimabanka sinn.

„Tækin birta tölur sem breytast með reglulegu millibili. Til þess að komast inn í heimabanka þarf að slá inn þessar tölur. Þótt óprúttnir hafi komist yfir einhverjar grunnupplýsingar þá geta þeir ekki komist að því hver gildandi tala hverju sinni er.

Gallinn er hins vegar sá að eigandi heimabanka verður alltaf að hafa tækið við hendina. Ef því er stolið hefur þjófurinn allan aðgang að heimabankanum.“

Friðrik bendir enn fremur á að aukið öryggi þýði yfirleitt, í hvaða formi sem er, minni þægindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×