Viðskipti innlent

Hagnaður Landsafls rúm 241 milljón

Landsafl hf., fasteignafélag í eigu Landsbankans og Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka, skilaði 241,4 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi ársins samanborið við tæplega 1,4 milljarða króna hagnaðs á sama tímabili í fyrra. Afkoman er viðunandi, að mati stjórnenda félagsins.

Í tilkynningu frá Landsafli til Kauphallar Íslands kemur fram að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi numið 403 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 326 milljónir króna árið á undan. Þá námu rekstrartekjur félagsins 529 milljónum króna samanborið við rúmlega 448 milljónir króna í fyrra.

Samkvæmt efnahagsreikningi í lok júní námu heildareignir félagsins rúmum 16,8 milljörðum króna og bókfært eigið fé nam rétt rúmum 5 milljörðum króna.

Í uppgjörinu kemur fram að horfur í rekstri félagsins séu góðar á komandi misserum en að endanleg niðurstaða muni þó meðal annars ráðast af skilyrðum á fjármagnsmörkuðum og gengisskráningu íslensku krónunnar.

Landsafl hefur yfir að ráða um 125.000 fermetrum af skrifstofu- og verslunar- og iðnaðarhúsnæði, vörugeymslum og fleiru og eru viðskiptavinir þess fjölmargir, meðal annars ríki og sveitarfélög, félög skráð í Kauphöll Íslands sem og ýmis önnur stór og smá fyrirtæki, að því er segir í tilkynningunni.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×