Innlent

Zimsenhúsið flutt úr Hafnarstræti

Zimsenhúsið hefur verið flutt úr Hafnarstræti en þar hefur það staðið í hundrað og tuttugu og tvö ár. Flutningurinn gekk það vel að blómavasi sem stóð í einni gluggakistu hússins haggaðist ekki. Húsið var flutt í morgun út á Granda þar sem það mun standa þar til því verður fundinn framtíðarstaðsetning.

Húsið var flutt í heilu lagi en það er gríðarlega stórt eða 24 og hálfur metri á lengd, 8 metrar á breidd og nálægt hundrað tonnum að þyngd. Þurfti að sérsmíða allan búnað sem notaður var til að hífa húsið upp á vörubílspall sem búið var að styrkja sérstaklega fyrir þetta verkefni. Flutningur hússins út á Granda gekk vonum framar og að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdarstjóra Minjaverndar, skemmdist húsið ekkert í flutningunum og gekk ferðin svo glimrandi vel að blómavasi sem láðst hafði að taka úr gluggakistu hússins stóð enn á sínum stað þegar á leiðarenda var komið.

Zimsen húsið var byggt í tvennu lagi og er eldri hluti hússins frá árinu 1884 en sá yngri var byggður fimm árum seinna. Upphaflega var húsið pakkhús í eigu Thomsen Magasín en síðar voru starfræktar þar ýmsar verslanir og önnur þjónustufyrirtæki. hugmyndir eru uppi um hvar þetta gamla, reisulega hús Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvar húsið fái stað en verið er að skoða þær hugmyndir sem fram hafa komið eins og hvort það fái heimili í Viðey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×