Sport

Mourinho í Brasilíu

Heimsókn Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea niður til Brasilíu á fimmtudag hefur valdið heilmiklu fjaðrafoki í knattspyrnuheiminum. Mourinho var viðstaddur stórleik brasilíska liðsins Corinthians og argentínska stórliðsins River Plate í suður-ameríkubikarnum. Altalað er um að hann hafi verið að fylgjast með eftirsóttasta sóknarmanni álfunnar, hinum argentínska Carlos Tevez sem leikur með Corinthians.

Svo mikinn ugg olli heimsókn Mourinho í herbúðum brasilíska liðsins að forseti félagsins hefur neyðst til að lýsa því yfir að Tevez sé ekki til sölu. "Það er ekki til neins að tala um einhvern verðmiða því Tevez er ekki til sölu." sagði Kia Joorachian, forseti Corinthians sem greiddi Boca Juniors sem nemur um 12 milljónum punda (einn og hálfur milljarður ÍSK) fyrir leikmanninn árið 2004.

Mourinho var að sjálfsögðu með svör á reiðum höndum þegar hann var spurður út í heimsókn sína niður til Brasilíu. "Fólk getur sagt hvað sem það vill en þarna voru 22 leikmenn sem var þess virði að fylgjast með. Ég skellti mér á leikinn vegna þess að gæði fótboltans þarna jafnast á við Meistaradeild Evrópu. Ensku úrvalsdeildinni er lokið hvað mitt lið varðar svo núna get ég farið og fylgst með fótbolta annarsstaðar án þess að hafa áhyggjur." sagði portúgalski knattspyrnustjórinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×