Viðskipti innlent

Mikil ásókn í erlend verðbréf

Mikil sókn hefur verið í erlend verðbréf síðustu mánuði. Í Morgunkorni Glitnis segir að það endurspegli að líkindum væntingar um gengislækkun krónunnar. Í leiðinni hafi sóknin í erlend verðbréf átt þátt í gengislækkun krónunnar undanfarið.

Nettókaup Íslendinga á erlendum verðbréfum námu samtals 29 milljörðum króna í síðasta mánuði og er um að ræða önnur mestu nettókaup á erlendum verðbréfum í einum mánuði frá því byrjað var að safna saman upplýsingum um þessi kaup. Mestu kaupin voru hins vegar í janúar en þau námu ríflega 33 milljörðum króna. Samtals voru því keypt verðbréf erlendis nettó fyrir tæpa 63 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við tæpa 7 milljarða á sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir jafnframt að stóraukin viðskipti með erlend verðbréf megi rekja til fjárfestingaþarfar lífeyrissjóðanna og umfangsmikilla útrásarverkefna fyrirtækja og einstaklinga. Þó megi reikna með því að dragi úr nettókaupum erlendra verðbréfa á næstunni þar sem flest bendir til minna umfangs útrásarverkefna. Þá hafi gengi krónunnar lækkað töluvert síðustu vikurnar og minni gengislækkun sé framundan. Erlend verðbréfakaup sýnist því ekki jafn freistandi og áður í þessu samhengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×