Viðskipti innlent

Bankar mæla með öðrum bönkum

Greiningardeild Landsbankans mælir með kaupum og yfirvogun á hlutabréfum í Glitni eftir að Glitnir birti "sannfærandi" hálfs árs uppgjör sem var langt yfir væntingum annan ársfjórðunginn í röð.

Metur Landsbankinn markaðsvirði Glitnis á 271,9 milljarða króna sem gefur gengið 19,4 og telur að hlutabréf Glitnis gefi betri ávöxtun en önnur hlutabréf til skamms tíma í vel dreifðu eignasafni.

Þá hefur Landsbankinn birt nýtt verðmat á KB banka sem hljóðar upp á 545 milljarða króna sem gefur gengið 808 krónur á hlut. Mælir bankinn með kaupum á bréfum KB banka en breytir ráðgjöf sinni úr yfirvogun í markaðsvogun í vel dreifðu eignasafni. Það er því skoðun Landsbankans að gengi KB banka muni þróast með sama hætti og markaðurinn til skamms tíma.

Þá hefur KB banki uppfært verðmat sitt á Landsbankanum úr 27,4 krónum á hlut í 26,5 krónur. Er mælt með kaupum í bankanum.

Glitnir hefur ekki uppfært verðmat sitt á hinum bönkunum eftir að þeir birtu sex mánaða uppgjör sín en í maí var mælt með kaupum bæði í KB banka og Landsbankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×