Innlent

Þjófagengi ákært

Hópurinn var handtekinn eftir innbrot í félagsheimilið í september síðastliðnum. Honum hefur nú verið birt hluti þeirra ákæra sem þau eiga yfir höfði sér.
Hópurinn var handtekinn eftir innbrot í félagsheimilið í september síðastliðnum. Honum hefur nú verið birt hluti þeirra ákæra sem þau eiga yfir höfði sér.

Höfðað hefur verið opinbert mál á hendur ungmennunum sem fóru ránshendi um landið í september síðastliðnum. Ákæran nær yfir hluta þeirra brota sem hópurinn er talinn hafa framið frá seinni hluta sumars og fram í september. Sá sem flestir liðir ákærunnar beinast að, 21 árs gamall karlmaður, situr enn í síbrotagæsluvarðhaldi.

Í ákærunum er honum og þremur ungmennum, tveimur stúlkum og einum dreng, á aldrinum 16-18 ára, meðal annars gefið að sök að hafa brotist inn í félagsheimilið Árnes og stolið þaðan alls kyns varningi og búnaði að verðmæti á fimmta hundrað þúsund, margvíslegar gripdeildir, bílþjófnaði, önnur innbrot, ölvunarakstur, fjársvik auk annars konar auðgunarbrota.

Drengirnir tveir voru handteknir í september eftir að þeir höfðu í samfloti við yngri stúlkuna farið ránshendi víða um landið á skömmum tíma. Meðal viðkomustaða þeirra voru Húsavík, sumarbústaðabyggðir í Borgarfirði, Selfoss og að endingu höfuðborgarsvæðið.

Auk þeirrar ákæru sem nú hefur verið birt þeim eru fjölmörg önnur mál tengd hluta hópsins til vinnslu hjá lögreglu. Eldri drengurinn er til að mynda grunaður um að hafa einn átt aðild að sex öðrum hegningarlagabrotum og framið sjö önnur í slagtogi við aðra á tímabilinu 23. júlí til 5. september til viðbótar við þau sem hann er ákærður fyrir nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×