Innlent

Hærra frítekjumark aldraðra

Ríkisstjórnin leggur til að 300.000 króna frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega taki að fullu gildi um næstu áramót og gildistöku þar með flýtt um þrjú ár. Í frumvarpi um almannatryggingar sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir að frítekjumarkið taki gildi í tveimur áföngum, árið 2009 og 2010. Er þessi ákvörðun sögð endurspegla vilja ráðherra og ríkisstjórnar að koma til móts við eindregnar óskir talsmanna fulltrúa aldraðra og aldraðra sjálfra.

Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn sendu frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem flokkarnir sögðust fagna þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þó nái þetta skref hvergi nærri nógu langt og sé aðeins þriðjungur af því sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til á Alþingi. Í þingsályktunartillögu sem stjórnarandstöðuflokkarnir stóðu sameiginlega að í haust er lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þúsund krónur á mánuði eða 900 þúsund krónur á ári og komi strax til framkvæmda.

Krefjast flokkarnir þrír þess að ríkisstjórnin stígi nú þegar stærri skref til þess að bæta kjör lífeyrisþega í samræmi við þessar tillögur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×