Innlent

Ávinningurinn af samráði ótvíræður

Tankar olíufélaganna Aðalmeðferð í máli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum fer fram 22. nóvember.
fréttablaðið/e.ól
Tankar olíufélaganna Aðalmeðferð í máli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum fer fram 22. nóvember. fréttablaðið/e.ól

Hugmyndir olíufélaganna um að lítill sem enginn ávinningur hafi verið af verðsamráði félaganna, sem stóð yfir frá 1993 til 2001, eru fjarri sannleikanum og standast ekki skoðun. Þetta kemur fram í greinargerð sem samkeppniseftirlitið skilaði til héraðsdóms 31. janúar á þessu ári og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Er því haldið fram í greinargerðinni að ávinningurinn af samráðinu hafi verið ótvíræður. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu 21. október síðastliðinn sögðu dómskvaddir matsmenn í máli Kers gegn samkeppnisyfirvöldum að „lítill sem enginn ávinningur" hefði verið af samráðinu.

Olíufélögin halda því fram, samkvæmt greinargerð samkeppniseftirlitsins, að hugsanlegt sé að þau hafi jafnvel tapað á samráðinu.

Í greinargerðinni er lítið gert úr röksemdum olíufélaganna og tal um lítinn sem engan ávinning væri „vitaskuld rangt", eins og orðrétt segir í greinargerðinni.

Eru röksemdir olíufélaganna, sem eigi að leiða til lægri sektargreiðslu, taldar jafngilda því ef þjófur reyni að verja ávinning af gjörðum sínum með því að tefla fram kostnaði af „kaupum á kúbeini" sem notað hefði verið við þjófnaðinn, sem gildum rökum fyrir engum ávinningi af verknaði.

Í greinargerðinni er frá því greint að samkeppniseftirlitið telji olíufélögin „kerfisbundið freista þess að varpa rýrð á rannsóknina og niðurstöðu samkeppnisyfirvalda".

Oddgeir Einarsson, annar tveggja lögmanna Kers, segir athugun á gögnum leiða það í ljós að ávinningur af samráði hafi lítill sem enginn verið. „Þegar bornar eru saman markaðsaðstæður sem fyrir voru á markaðnum, og svo hvaða áhrif samráðið hafði á verðlagningu, þá er ekkert sem bendir til þess að samráðið hafi skilað ávinningi samkvæmt athugunum sem við höfum lagt til grundvallar í málinu."

Aðalmeðferð í máli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum hefst miðvikudaginn 22. nóvember í Héraðsdómi Reykjavíkur. Krafa borgarinnar nemur rúmlega 150 milljónum króna.

Eins og greint hefur verið frá í Fréttablaðinu hefur íslenska ríkið óskað eftir viðurkenningu á bótaskyldu vegna verðsamráðsins en olíufélögin höfnuðu henni. Vinna er hafin við undirbúning vegna málshöfðunar íslenska ríkisins á hendur olíufélögunum en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstarréttarlögmaður sækir mál á hendur olíufélögunum fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×