Innlent

Sykurmolarnir fylltu Höllina

Fullt var út úr dyrum á tónleikum Sykurmolanna í Laugardalshöll í gærkvöldi. Hljómsveitin koma saman á nýjan leik til að minnast þess að tuttugu ár eru liðin frá því fyrsta smáskífa sveitarinnar, afmæli, kom út hinn 17. nóvember 1986.

Smáskífan afmæli markaði upphafið af rúmlega sex ára sigurgöngu Sykurmolanna um heiminn. Hljómsveitin náði miklum vinsældum víða um heim, en þó aðallega í Evrópu og í Bandaríkjunum. Óhætt er að fullyrða að frægðarganga Sykurmolanna hafi skapað Björk stökkpall út í heim þegar hún hóf sólóferil sinn eftir að hljómsveitin hætti störfum eftir lokatónleika í New York árið 1992.

Sykurmolarnir tóku flest af sínum frægustu lögum á tónleikunum í gær og voru klappaðir upp í tvígang. Eftir seinna uppklappið steig, Johnny Triumph, gamall vinur hljómsveitarinnar á svið með henni og söng lagið Luftguitar við mikinn fögnuð áhorfenda. En Johnny er listamannsnafn rithöfundarins Sjóns, sem gjarnan tróð upp með Sykurmolunum og hefur starfað náið með Björk. Í Luftguitar bættust einnig ungir synir Margrétar Örnólfsdóttur, hljómborðsleikara, og Þórs Eldons, gítarleikara, annars vegar og sonur Einars Arnar, söngvara, hins vegar á svið og spiluðu listavel á gítar.

Stór hluti tónleikagesta var frá útlöndum og fólk sem ekki var komið á útivistaraldur þegar Sykurmolarnir hættu og greinilegt að tónleikarnir voru mikil upplifun fyrir tónleikagesti. Ekki er meiningin að Sykurmolarnir komi aftur saman í bráð að minnsta kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×