Erlent

Fjórir látnir og tveir helsærðir

Norðmenn eru felmtri slegnir eftir að karlmaður myrti þrjá og svipti sig lífi í Noregi í dag. Tveir liggja helsærðir. Fólkið tengdist allt fjölskylduböndum.

Maðurinn var 38 ára og fórnarlömbin þrjú úr fjölskyldu hans. Fram kemur á fréttavefjum norska blaðsins Verdens gang og norska ríkissjónvarpsins að maðurinn hafi fyrst myrt tvo í bænum Sandefjord í Vestfold-fylki. Þá hafi hann haldið til Nøtterøy, sem er skammt þar frá, og ráðist inn í hús og stungið þrjá. Einn lést en maður og kona voru flutt alvarlega særð á sjúkrahús.

Þá ók maðurinn að bensínstöð í Sandefjorð vopnaður haglabyssu. Þar hleypti hann af byssunni einu sinni eða tvisvar að sögn sjónvavotta. Engan sakaði þar. Lögregla elti manninn nokkurn spöl þegar hann ók frá bensínstöðinni. Þá stöðvaði maðurinn bíl sinn og steig út úr honum.Lögregla skaut viðvörunarskotum að manninum og tvö þeirra hæfðu hann. Þá beindi ódæðismaðurinn haglabyssunni að sjálfum sér og svipti sig lífi. Vitni segja manninn hafa verið kaldan og yfirvegaðan þegar sem hann framdi ódæðin.

Fórnarlömb mannsins eru sögð á aldrinum fjórtán til þrjátíu og níu ára. Að sögn norskra fjölmiðla eru deilur innan fjölskyldunnar sagðar hafa valdið því að maðurinn greip til vopna með þessum hörmulegu afleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×