Innlent

Rannsóknir hafnar vegna hugsanlegs álvers á Bakka

Hafnar eru rannsóknir á háhitasvæðum á Norðurlandi fyrir hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík. Ætlunin er að kanna og rannsaka háhitasvæðin nægjanlega til þess að unnt verði að taka ákvörðun um nýtingu þeirra og uppbyggingu vegna stóriðjunnar. Fram kemur í tilkynningu frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga að þrjár rannsóknarholur verði boraðar í sumaru og þegar sé búið að bora þá fyrstu. Hún er 2130 metra djúp og er í Bjarnarflagi í Mývatnssveit en að sögn Árna Gunnarssonar, verkefnisstjóra hjá Landsvirkjun, þarf holan að blása í nokkrar vikur áður en upplýsingar um afkastagetu hennar liggja fyrir. Fyrstu mælingar á holunni bendi til þess að um nokkuð kraftmikla holu sé að ræða.

Rannsóknirnar eru gerðar vegna samkomulags sem Alcoa og ríkisstjórnin undirrituðu fyrsta mars síðastliðinn viljayfirlýsingu um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt, 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík. Fari svo að Alcoa ákveði að reisa nýtt álver á Norðurlandi er fyrstu framkvæmda á svæðinu að vænta árið 2010. Enn fremur segir í tilkynningunni að verði af framkvæmdum megi gera ráð fyrir því að fólksfjölgun vegna álversins á Bakka verði um 1000 manns í Þingeyjarsýslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×