Erlent

Ólgan vex í Sómalíu

Ástandið í Sómalíu er orðið svo viðkvæmt að fulltrúar Sameinuðu þjóðanna óttast að á hverri stundu geti borgarastyrjöld brotist þar út á ný. Eþíópískt herlið er í viðbragðsstöðu við sómölsku landamærin, tilbúið að verja bráðabirgðastjórnina í landinu.

Sómalskt samfélag er í molum eftir margra ára borgarastyrjöld og þótt bráðabirgðastjórn sitji þar að völdum að nafninu til hefur ríkið í raun verið stjórnlaust í hálfan annan áratug. Undanfarnar vikur hafa átök á milli íslamskra skæruliða og herflokka sem hlynntir eru ríkisstjórninni farið vaxandi en Bandaríkjamenn eru sagðir styðja þá síðarnefndu og líta á þá sem bandamenn í stríðinu gegn hryðjuverkum. Í síðustu viku tókst skæruliðunum að ná yfirráðum í höfuðborginni Mogadishu og margt virtist benda til að borgin Baidoa yrði næst þar sem stjórnin hefur aðsetur. Þótt leiðtogi skæruliðanna hafi lýst því yfir að ekki stæði til að steypa stjórninni hefur eþíópíska ríkisstjórnin sent herlið sitt til landamæranna til stuðnings bráðabirgðastjórninni. Andstaðan við íslömsku skæruliðina á meðal Sómalanna sjálfra virðist hins vegar ekki vera sérlega mikil, til dæmis hafa þúsundir manna mótmælt tillögum Sameinuðu þjóðanna um að senda friðargæslulið á vettvang því margir treysta skæruliðunum betur en ríkisstjórninni betur til að koma á lögum og reglu.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í Sómalíu sagði í samtali við breska ríkisútvarpið í dag að á hverjum degi kæmu skip hlaðin vopnum til landsins, þrátt fyrir alþjóðlegt vopnasölubann, og aðeins væri tímaspursmál hvenær skæruliðunum og stjórnarhernum lysti saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×