Viðskipti innlent

Neytendur bjartsýnir í ágúst

Bjartsýni íslenskra neytenda um stöðu mála í hagkerfinu hefur aukist á milli mánaða.
Bjartsýni íslenskra neytenda um stöðu mála í hagkerfinu hefur aukist á milli mánaða.

Væntingavísitala Gallup mældist 108 stig í ágúst og er það 22,6 prósenta hækkun frá síðasta mánuði. Niðurstöðurnar benda til að íslenskir neytendur séu almennt bjartsýnir á stöðu mála í hagkerfinu.

Vísitalan var 88,1 stig í síðasta mánuði og er það lægsta gildi sem mælst hefur frá byrjun árs 2002. Þótt íslenskir neytendur séu bjartsýnir nú hefur væntingavísitalan dregist saman um 26,2 stig á milli ára.

Væntingavísitala Gallup mælir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Ef vísitalan mælist fyrir ofan 100 stig þá eru svarendur almennt bjartsýnir á stöðu mála í hagkerfinu.

Í Hálffimm fréttum greiningardeildar KB banka segir að væntingavísitala Gallups hafi náð hámarki í febrúar á þessu ári en að í kjölfar gengislækkunar krónunnar, sem skilaði sér hratt inn í verðlag og þar með aukinni verðbólgu, hafi dregið úr væntingum íslenskra heimila.

Aukna bjartsýni neytenda nú megi líklega rekja til þess að væntingar eru um að verðbólgan hafi náð hámarki og að brátt muni vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé að ljúka.

Greiningardeildin segir ennfremur að þrátt fyrir að væntingar heimila séu að aukist á ný þá telji hún að einkaneyslan muni dragast saman á seinni hluta ársins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×