Innlent

Árásarmennirnir enn ófundnir

Öryggisvörður var stunginn í bakið í nótt í verslun Select í Breiðholti og starfsmaður verslunarinnar var sleginn í höfuðið. Árásarmennirnir eru ófundnir.

Það var skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt sem tveir piltar um tvítugt komu inn í verslun Select við Suðurfell í Breiðholtinu og höfðu uppi mikil skrílslæti. Þegar öryggisvörður hafði afskipti af þeim sögðust þeir ætla að kaupa sígarettur en var neitað um afgreiðslu sökum framkomu þeirra. Samkvæmt heimildum fréttastofu æstust þeir þá enn meir sem leiddi til átaka milli piltanna og öryggisvarðarins inni í versluninni og reyndi einn starfsmaður Select að skerast í leikinn. Slagurinn barst út á planið fyrir utan sem endaði með því að annar árásarmannanna dró upp hníf og stakk öryggisvörðinn í bakið, auk sem starfsmaðurinn fékk hnefahögg í hægra gagnauga. Að því loknu hlupu piltarnir á brott.

Bæði öryggisvörðurinn og starfsmaðurinn voru fluttir á slysadeild þar sem í ljós kom að hnífsblaðið stöðvaðist í einu rifbeini öryggisvarðarins, skammt fyrir neðan hægra herðablað, og þykir mildi að ekki fór verr. Sauma þurfti sjö spor í augabrún starfsmanns Select.

Öryggisvörðurinn var útskrifaður af sjúkrahúsi í morgun. Lögregla leitar enn árásarmannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×