Innlent

Nota gæsluþyrlu við rjúpnaveiðieftirlit

Landhelgisgæslan hefur tekið að sér að aðstoða embætti ríkislögreglustjóra og sýslumannsembætti víðs vegar um landið við eftirlit með rjúpnaveiðum í þeim tilgangi að stuðla að markvissri framkvæmd laga og reglna um rjúpnaveiðar. Þetta kemur fram á vef umhverfisráðuneytisins.

Þar segir að Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hafi í haust farið þess á leit við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra að virkt eftirlit með veiðunum yrði haft úr lofti eftir því sem kostur væri á. Fyrsta þyrluflugið var farið í dag og um borð voru þyrluflugsveit Landhelgisgæslunnar auk sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Embættin munu skipuleggja fleiri eftirlitsflug á næstunni.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum hófst rjúpnaveiðitímabilið þann 15. október en það stendur til 30. nóvember. Veiðar eru ekki heimilar á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×