Innlent

Hálslón er orðið 25 metra djúpt

Jökla er horfin úr Jökuldal. Hálslón er orðið 25 metra djúpt. Tappinn var settur í Kárahnjúkastíflu á tíunda tímanum í morgun.

Hálslón hefur hækkað um tæpa þrjá metra á klukkustund í dag frá því tappinn var settur í. Engin Jökulsá rennur nú niður Hafrahvammagljúfur en þar var áður eitt aurugasta fljót landsins.

Til þess að hefja fyllingu Hálsóns þurfti að loka tveimur lokum og tók það um tíu mínútur að loka hvorum. Að sögn Sigurðar Arnalds, talsmanns Kárahnjúkavirkjunar, gekk lokunin í alla staði vel. Eftir að lokunum hafði verið lokað var steypu dælt ofan við þær til þess að þétta þær enn frekar og koma í veg fyrir leka. Jarðvegi verður svo mokað þar ofan á á næstunni til að tryggja lokurnar enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×