Innlent

Gerir ráð fyrir mótmælum

Farið yfir málið Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, skoðuðu skjöl áður en Einar tilkynnti um ákvörðun sína í þinginu.
Farið yfir málið Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, skoðuðu skjöl áður en Einar tilkynnti um ákvörðun sína í þinginu. MYND/GVA

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segist alveg viss um að rétt sé að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni og óttast ekki að skaði hljótist af. „Ég geri ráð fyrir mótmælum. Mótmæli Breta koma ekki á óvart og fleiri þjóðir munu örugglega láta á sér kræla á næstunni.“

Hann segir sjávarútveginn hafa verið í fararbroddi hvalveiðisinna en greinin þekki best gangvirkið í lífríki hafsins og stöðu á mörkuðum. „Ég geri ekki lítið úr því að þetta geti haft neikvæð áhrif til skemmri tíma en langtímahagsmunirnir eru augljósir.“

Einar kunngerði ákvörðun sína við utandagskrárumræður á Alþingi í gær. Í gærmorgun kynnti hann ákvörðunina í ríkisstjórn, svo og á fundi sjávarútvegs- og utanríkismálanefnda og loks með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna.

Einar heimilar veiðar á níu langreyðum og þrjátíu hrefnum og fær Hvalur níu rétt til langreyðaveiðanna en hrefnuveiðiskipin sem stundað hafa vísindaveiðar fá að veiða hrefnurnar þrjátíu. Ráðherra hyggst svo leggja fram frumvarp í vetur um framtíðarfyrirkomulag hvalveiða þar sem kveðið verður á um úthlutun veiðiheimilda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×