Innlent

Engir símhlerunarúrskurðir vegna þjóðaröryggis frá 1976

Engir dómsúrskurðir hafa verið kveðnir upp síðustu þrjá áratugina þar sem símhleranir hafa verið heimilaðar á þeim forsendum að öryggi ríkisins sé hætta búin, að sögn Helga I. Jónssonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.

Ef íslenskir ráðamenn hafa verið hleraðir, líkt og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur haldið fram ásamt Árna Páli Árnasyni, fyrrverandi starfsmanni utanríkisráðuneytisins, á síðustu þremur áratugum, hafa þær farið fram án dómsúrskurðar og væru því lögbrot.

Jón Baldvin skýrði frá því í gær að starfsmaður Pósts og síma, sem varð vitni að því að sími Jóns Baldvins var hleraður í utanríkisráðherratíð hans, hafi lagt fram vottfesta staðfestingu á framburði sínum hjá lögmanni. Jón Baldvin segir jafnframt að starfsmaðurinn muni vitna þar um við rannsókn málsins.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skýrði síðastliðið vor frá niðurstöðum úr rannsóknum sínum á skriflegum heimildum um símhleranir á árunum 1946 til 1976. Þar kom fram að stjórnvöld létu meðal annars hlera síma íslenskra sósíalista, þar á meðal nokkurra þingmanna. Voru þær hleranir allar framkvæmdar samkvæmt dómsúrskurði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×