Innlent

Atvinnuhvalveiðar hófust á miðnætti

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tók í gær ákvörðun í samráði við ríkisstjórnina um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. Hann segir langtímahagsmuni þjóðarinnar vera mikla og augljósa. Hval 9, skipi Hvals hf., var haldið til veiða um hádegisbil í gær en bilaði.

Einar segist fullviss um að rétt sé að hefja hvalveiðar nú og óttast ekki að skaði hljótist af. „Ég geri ekki lítið úr því að þetta geti haft neikvæð áhrif til skemmri tíma en langtímahagsmunirnir eru augljósir.“

Stjórnarandstaðan tók yfirlýsingunni misjafnlega. Vinstri-grænir lýstu sig mótfallna atvinnuhvalveiðum en Frjálslyndi flokkurinn taldi níu langreyðar allt of lítinn kvóta. Samfylkingin var varkár í yfirlýsingum.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segist hafa beðið lengi eftir veiðileyfi en ekkert vita um hvað sautján ára löng biðin hafi kostað fyrirtækið. „Blessaður spurðu ekki að því. Ef maður reiknaði það allt saman út þá yrði maður brjálaður.“

Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga, segir að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að hefja atvinnuhvalveiðar að nýju séu fyrst og fremst sorglegar fréttir og segi ekkert um vilja íslensku þjóðarinnar.

„Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé tilgangslaus æfing því það er enginn markaður fyrir þetta kjöt, hvorki á Íslandi né annars staðar,“ sagði Árni Finnsson. „Ég skil ekki hvað sjávarútvegsráðherra gengur til. Ég hélt að hann hefði brýnni verkefnum að sinna en áhugamálum Kristjáns Loftssonar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×