Viðskipti erlent

Auðjöfur kaupir í Aer Lingus

Ein af vélum írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair.
Ein af vélum írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair. Mynd/AFP

Írski auðjöfurinn Denis O'Brien hefur keypt 2,1 prósents hlut í írska flugfélaginu Aer Lingus. O'Brien segir kaupin gerð til að koma í veg fyrir óvinveitta yfirtöku Ryanair á flugfélaginu.

Rúmlega 80 prósenta hlutur í írska flugfélaginu var í eigu írska ríkisins þar til fyrir um hálfum mánuði þegar mestur hluti hans var seldur í almennu hlutafjárútboði og flugfélagið skráð á markað. Ríkið heldur eftir rúmlega 28 prósenta hlut en starfsmenn flugfélagsins og aðrir hluthafar eiga afganginn.

Þá tryggði írska lággjaldaflugfélagið Ryanair sér um 20 prósenta hlut í Aer Lingus og hefur sömuleiðis gert yfirtökutilboð í afgang bréfa í félaginu. Tilboðið hljóðar upp á 1,48 milljarða evrur eða um 127 milljarða íslenskra króna.

Írska ríkið og starfsmenn Aer Lingus hafa verið mótfallnir tilboði Ryanair og segja það vanmat á virði félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×