Innlent

Hvalur 9 á hvalaslóðum djúpt úti af Faxaflóa

MYND/NFS

Flaggskip hvalveiðiflotans, Hvalur 9, kom á hvalaslóðir djúpt úti af miðjum Faxaflóa um hádegisbil. Síðast þegar fréttist hafði enginn hvalur verið skotinn. Hvalbáturinn er staddur rúmlega eitthundrað sjómílur norðvestur af Garðskaga, en hann sigldi af stað til veiða úr hvalstöðinni í Hvalfirði í gærkvöldi.

Skipið hefur heimild til að veiða allt að níu langreyðar á fiskveiðiárinu, sem stendur til loka ágústmánaðar á næsta ári, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra, sem tilkynnt var á Alþingi í gær. 17 ár eru liðin frá því stórhveli voru síðast veidd við Íslandsstrendur. Veiðitíminn á árum áður var yfirleitt yfir sumartímann, frá maímánuði og fram í september.

Langreyður er farhvalur, sem venjulega kemur upp að Íslandsströndum þegar nálgast vor en á veturna heldur hún sig í Atlantshafi langt fyrir sunnan Ísland. Langreyður er næst stærsta hvalategundin, og skyld þeirri stærstu, steypireyðinni. Fullvaxin er langreyður venjulega 18-20 metra löng og um 70 tonn að þyngd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×