Innlent

Skrifræði að opna veitingahús

Til að opna kaffihús getur þurft að leggja fram meira en þrjátíu fylgigögn þrátt fyrir að fyrirtækið hafi þegar lagt fram gögnin vegna annarra veitingastaða. Þetta hefur forstjóri Kaffitárs fengið að margreyna enda hefur fyrirtækið opnað sex kaffihús en að auki þarf að gera allt upp á nýtt á fjögurra ára fresti.

Til að fyrirtækið fái leyfi til að opna nýtt kaffihús þarf fyrirtækið, framkvæmdastjóri og stjórnarmenn að leggja fram ýmis gögn til að sýna þau séu traustsins verð. Til dæmis þarf að leggja fram fyrir fyrirtækið vottorð úr fyrirtækjaskrá, vottorð búsforræðis, staðfest virðisaukanúmer, vottorð lífeyrissjóðs um skuldastöðu en í sumum tilfellum er um fleiri en einn lífeyrissjóð að ræða og svo þarf vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu. Í tilfelli Kaffitárs þarf einnig að leggja fram gögn um forstjóra fyrirtækisins og fimm stjórnarmenn eða sakarvottorð, búsetuvottorð, forræðisvottorð og vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu. Þetta þarf að endurtaka við opnun hvers kaffihúss og svo aftur á fjögurra ára fresti.

Vegna þessa skrifræðis hafa Samtök atvinnulífsins sent Samgönguráðuneytinu bréf þar sem bent er á að framkvæmd þessi sé óþarflega ströng með hliðsjóðn af meðalhófsreglunni.

Nefnd hefur unnið að því að einfalda þessar reglur og á Aðalheiður von á að niðurstaða nefndarinnar verði lögð fram sem frumvarp nú á haustþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×