Innlent

Erfitt að meta áhrif hvalveiða á stuðning við Ísland

Sigríður Snævarr, sem leiðir umsóknarferli Íslands um aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, segir erfitt að meta hvort hvalveiðar Íslendinga hafi áhrif á framboð landsins. Hún segir mikilvægt að fámennar þjóðir fái fulltrúa í ráðið og ef Íslendingar nái kjöri, verði þeir fámennasta þjóðin sem átt hefur fulltrúa í öryggisráðinu.

Sigríður hélt erindi í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík í dag, á degi Samneinuðu þjóðanna, þar sem hún fór yfir stöðu mála varðandi umsókn Íslands um sæti í Öryggisráðinu. 128 þjóðir af 192 þurfa að styðja umsóknina í atkvæðagreiðslu árið 2008 og kjörtímabilið hefst 2009. Það hefur skapast hefð fyrir því að einhver Norðurlandaþjóðanna sitji í ráðinu annað hvort kjörtímabil og spurning hvort sú hefð haldi.

Það hefur þó gerst einu sinni að Norðurlönd náðu ekki kjöri, þegar Svíar komust ekki í ráðið árið 1992.

Sigríður vill lítið segja um áhrif hvalveiða Íslendinga á stuðning þjóða við framboð Íslands í Öryggisráðið. Viðbrögðin við veiðunum hafi óneitanlega verið hörð. Það sé hins vegar margt sem ráði því hvaða afstöðu ríki taka þegar kosið er til ráðsins.

Þegar Íslendingar gengu í Sameinuðu þjóðirnar fyrir tæpum 60 árum, segir Sigríður að þeir hafi verið fámennasta þjóðin í samtökunum. Nú séu hins vegar tuttugu og fjórar þjóðir fámennari innan samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×