Innlent

Ástæðan er verðhækkun olíu

Meira er brennt af kolum en áður auk þess sem fleiri hafa tekið upp heimiliskyndingu upp á gamla mátann.
Meira er brennt af kolum en áður auk þess sem fleiri hafa tekið upp heimiliskyndingu upp á gamla mátann.

Losun kolefnis í formi koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur aukist um 2,5 prósent á ári frá árinu 2001 en losunin jókst um eitt prósent árlega fram til ársins 2000. Þetta kemur fram á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar, aðstoðarmanns umhverfisráðherra, www.esv.blog.is.

Ástæðan fyrir því að losunin hefur aukist svo hratt er rakin til þess að meira er brennt af kolum en áður. Skýringin er að hluta til verðhækkun á olíu upp á síðkastið en stórir orkuframleiðendur hafa skipt frá olíu yfir í kol sem menga meira.

„Einnig hafa fleiri brugðið á það ráð að taka upp heimiliskyndingu upp á gamla mátann með eldivið og öðrum álíka orkugjöfum. Upp úr 1970 virtist sem heimsbyggðin væri að ná tökum á losun kolefnis þar sem eldsneytisnotkunin minnkaði og breyttist,“ segir Einar og telur líkast til vísað til aukinnar notkunar á kjarnorku sem hafi orðið á þessum árum og notkunar á nýjum jarðgaslindum sem hafi útrýmt kolum að mestu.

„En nú sem sagt eykst þessi bruni hratt á nýjan leik. Og auk þeirrar ástæðu sem áður er talin eiga fjölmenn nýhagvaxtarlönd með Kína í fararbroddi sinn þátt í þessari aukningu. Samkvæmt þessum upplýsingum er því gróðurhúsavandinn enn stærri og illviðráðanlegri en áður var talið. Eða hvað?“ spyr hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×