Innlent

Málið tekið fyrir í yfirrétti á Englandi

Jón Ólafsson Vildi ekkert tjá sig um efnisatriði málsins.
Jón Ólafsson Vildi ekkert tjá sig um efnisatriði málsins. MYND/GVA

Málflutningur í máli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors og Jóns Ólafssonar kaupsýslumanns, í yfirrétti á Englandi, fer fram í dag.

Kröfu Hannesar um að dómur sem féll í enskum dómstóli, þess efnis að Hannesi bæri að greiða Jóni tólf milljónir króna vegna orða sem hann birti á heimasíðu sinni, yrði ógiltur var hafnað. Hann áfrýjaði málinu í kjölfarið til yfirréttar. „Aðalatriðið er að ég tel að mér hafi verið ranglega stefnt og í dómi undirréttar var á það fallist að mér hafi verið stefnt á röngum forsendum. Hins vegar þótti það ekki nóg ástæða til þess að fallast á mína kröfu og ég ákvað í kjölfarið að láta á það reyna, hvort yfirréttur myndi meta efnisatriði málsins með sama hætti," sagði Hannes er Fréttablaðið náði tali af honum í gær en hann var þá staddur í London og ætlaði sér að vera viðstaddur málflutninginn í dag.

Grundvöllur málsins byggist á ummælum er birtust á heimasíðu Hannesar, sem vistuð var á vef-svæði Háskóla Íslands. Ummælin voru á ensku og fjölluðu um að Jón hefði lagt grunninn að viðskiptaferli sínum með ólögmætum fíkniefnaviðskiptum. Hannes hefur síðan margsinnis haldið því fram að hann hafi aðeins verið að endursegja fréttir sem fjallað hafi verið um í íslenskum dagblöðum, meðal annars í Morgunpóstinum árið 1995.

Jón Ólafsson sagði lögfræðinga sína sjá alfarið um málið er Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Hann var því ekki tilbúinn til þess að ræða efnisatriði þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×