Innlent

Birni falið að ganga frá kaupum

Varðskip Landhelgisgæslunnar eru þrjú, Ægir, Týr og Óðinn.
Varðskip Landhelgisgæslunnar eru þrjú, Ægir, Týr og Óðinn.

Ríkisstjórn Íslands fer yfir niðurstöðu skýringaviðræðna íslenskra yfirvalda og skipasmíðafyrirtækisins Asmar á ríkisstjórnarfundi á morgun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra falið að ganga endanlega frá kaupum á varðskipinu á grundvelli skýringaviðræðna sem fram fóru í síðustu viku.

Fulltrúar skipasmíðafyrirtækisins Asmar, sem smíðar skip sín í Talcahuano í Chile, funduðu þá með forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar, Ríkiskaupa og Rolls Royce í Noregi en það fyrirtæki kemur að hönnun skipsins.

Danskur verkfræðingur, Carsten Fauner, var íslenskum yfirvöldum innan handar í samningaviðræðunum sem tæknilegur ráðgjafi.

Eins og greint hefur verið frá í Fréttablaðinu átti Asmar lægsta tilboðið í gerð nýs varðskips, um 2,4 milljarða króna sem var um 200 milljónum undir áætluðum kostnaði.

Þrjú önnur fyrirtæki buðu í gerð varðskipsins, Damen í Hollandi, Simek í Noregi og Peene-werft í Þýskalandi.

Gert er ráð fyrir að skipið verði rúmlega 90 metra langt og með 100 til 125 tonna dráttarkraft. Björn Bjarnason vildi ekki tjá sig um málið er Fréttablaðið leitaði eftir því í gær frekar en Sólmundur Jónsson, rekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar. Ekki náðist í Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×