Rallkappinn Markko Martin segir að heimsmeistaramótið í ralli stefni í strand og segir að ef alþjóða bifreiðasambandið taki ekki hressilega í taumana strax, muni mótið deyja drottni sínum fljótlega. Martin hefur ekkert ekið síðan hann missti aðstoðarökumann sinn Michael Park í Wales í fyrra eftir að þeir félagar óku bíl sínum á tré.
"Þetta er bara ekki sama keppni og hún var og því á ég erfitt með að ná fram þeirri hvatningu og einbeitingu sem til þarf til að standa í þessari keppni. Ég sé ekki mikla framtíð fyrir mér lengur á heimsmeistaramótinu," sagði Martin.
"Það verður að vera samkeppni milli bílaframleiðenda svo að mótið verði virkilega spennandi, en ef það er ekki til staðar, dofnar verulega yfir mótinu," sagði Martin, en aðeins Subaru og Ford eru með sérstök keppnislið í heimsmeistaramótinu í rallakstri. "Bifreiðasambandið verður að gera eitthvað í sínum málum í snatri, því annars á mótið aðeins eftir að dala enn meira en það hefur nú þegar gert."