Erlent

Óttast um áhrif árásanna á friðarviðræður

Vavunya á Sri Lanka.
Vavunya á Sri Lanka. MYND/AP

Tæplega sjötíu manns létust í sjálfsmorðsárás Tamíltígra á stjórnarherinn í norðurhluta Sri Lanka í morgun. Óttast er að árásin hafi slæm áhrif á friðarviðræður sem hefjast eiga eftir tíu daga.

Uppreisnarmenn Tamíltígra drógu sig út úr friðarviðræðum í apríl á þessu ári og til átaka kom milli þeirra og stjórnarhersins í júlí. Mörg hundruð her- og uppreisnarmenn og óbreyttir borgarar hafa týnt lífi síðan þá og hafa átökin ekki verið meiri og verri á Srí Lanka síðan samið var um vopnahlé árið 2002.

Í morgun var gerð árás á bílalest stjórnarhersins í norðurhluta Sri Lanka en talið er að Tamíltígrar beri ábyrgð á árásinni. Bílalestin var á leið frá austurströndinni inn í miðja eyjuna þar sem setið var fyrir lestinni. Vörubíl fullum af sprengiefni hafði verið lagt á veginn og sprengdi bílstjórinn sig og bílinn í loft upp þegar bílalestin kom að. Þrettán rútur eyðilögðust í árásinni og um sjötíu manns létust auk þess sem tugir slösuðust.

Þorfinnur Ómarsson er talsmaður vopnahléseftirlitsins á Sri Lanka en starfsmaður á þeirra vegum var staddur í nokkra kílómetra fjarlægð frá árásarstaðnum í morgun. Þorfinnur segir árásarstaðinn vera fyrir utan hefðbundin átakasvæði eða inn í miðju landinu og þar séu venjulega ekki framin verk af þessu tagi.

Friðarviðræður milli Tamíltígra og stjórnarhersins eiga að hefjast á ný í Genf í Sviss eftir tíu daga og óvíst er hver áhrif árásanna í morgun eru á þær. Þorfinnur segir mikilvægt að menn haldi ró sinni og mæti á fundinn þrátt fyrir árásirnar í morgun þar sem þær séu gríðarlegar mikilvægar fyrir framtíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×