Innlent

Opinn fyrir öllum kostum í ríkisstjórnarsamstarfi

Formaður Sjálfstæðisflokksins segist opinn gagnvart öllum kostum í nýju ríkisstjórnarsamstarfi. Hins vegar sé sundrung meðal stjórnarandstöðuflokkanna, til dæmis í varnarmálum.

 

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom víða við í ræðu sem hann flutti á aðalfundi sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi um helgina. Hann sagðist ánægður með stöðu flokksins, ræddi varnarmál, ábyrga efnahagsstjórn, Kárahnjúka og fleira en nefndi Framsóknarflokkinn aðeins á nafn í tengslum við vandræðin í sumar þegar Halldór Ásgrímsson steig til hliðar.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna og Frjálslynda flokksins, ætla að reyna að bræða sig saman í næstu ríkisstjórn fái þeir meirihlutafylgi að loknum kosningum. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að þær yfirlýsingar breyti engu um taktík flokksins fyrir komandi þingkosningar, hann útiloki ekki samstarf með einhverjum minnihlutaflokkanna.

Geir segir Sjálfstæðisflokkinnn önnum kafinn í sínum verkefnum, bæði í ríkisstjórn og á Alþingi, og muni halda sínu striki hvað sem líði áformum stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hafi góðan stuðning meðal fólksins í landinu og ríkisstjórnarsamstarfið gangi mjög vel.

Aðspurður hvort það þýði að flokkurinn einblíni áfram á Framsóknarflokkinn sem samstarfsflokk segir Geir að allt sé opið í þeim efnum og hefð sé fyrir því hér á landi. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert neitt bandalag við Framsóknarflokkinn en samstarfið gangi vel núna.

Spurður hvort hann telji að hinir flokkarnir hafi málað sig út í horn með sínum yfirlýsingum telur Geir ekki svo vera en það verði að koma í ljós hvernig mál þróist. Samstarf flokkanna á þingi fari ekki alltof glæsilega af stað miðað við heitstrengingar flokkanna fyrir þingupphaf. Mikill ágreiningur sé t.d. um varnarmál og atriði sem þeim tengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×