Innlent

Fólki verður fjölgað hjá Icelandair

FL Group hefur selt allt sitt hlutafé í Icelandair. Forstjóri félagsins segir mikla vaxtarmöguleika í flugi og ferðaþjónustu og áætlar að starfsfólki verði fjölgað en ekki fækkað með nýjum eigendum.

Þrír hópar fjárfesta hafa keypt 50,5% hlut í Icelandair Group. Stærsta hlutinn, 32%, keypti Langflug ehf. sem er að mestu í eigu Samvinnutrygginga með Finn Ingólfsson í fararbroddi, þá er það Naust ehf., eða eigendur Essó, sem keypti rúm 11% og svo Blue Sky Transport Holding sem er að mestu í eigu Ómars Benediktssonar sem keypti rúm 7% en Ómar var áður einn af eigendum Íslandsflugs.

Þriðjungur hlutafjárins verður boðinn fjárfestum og almenningi í almennu hlutafjárútboði. Nú þegar er hins vegar búið að ráðstafa um 67% hlutafjárins en 4% eru tekin frá fyrir starfsmenn sem hafa áhuga og lykilstjórnendur ætla sömuleiðis að kaupa, þeirra á meðal Jón Karl Ólafsson forstjóri. Hann segir gríðarlega vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og flugrekstri og hefur mikla trú á fyrirtækinu. Stefnubreyting verði hins vegar ekki með nýjum eigendum, þetta sé langtímafjárfesting í þeirra huga en áætlað sé að vaxa um 10-15% á ári næstu árin.

Jón Karl neitar því að hagræðing fylgi nýjum eigendum Icelandair, þvert á móti þurfi að fjölga starfsmönnum til að mæta fyrirhuguðum vexti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×