Innlent

Frumvarp um æskulýðslög lyktar af lögregluríki og ofsóknaræði

MYND/Valli

Nýtt frumvarp um æskulýðslög lyktar af lögregluríki og ofsóknaræði, segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að allir þeir, sem sæki um vinnu sem varði æskulýðsmál, verði skylt að leggja fram sakavottorð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi á dögunum en það var samið af nefnd sem flokkssystir ráðherrans, Ásta Möller, var í forsvari fyrir. Frumvarpið var sent til umfjöllunar í menntamálanefnd þar sem Mörður á meðal annarra sæti, og hefur hann ýmislegt út á frumvarpið að setja. Aðspurður hvort ekki sé eðlilegt að lög sem snúa að börnum og öryggi þeirra séu hert, í ljósi þess að veruleg aukning hefur orðið í kynferðisbrotamálum gegn börnum á undanförnum árum, segist Mörður telja að barnaverndarlögin séu alveg nógu ströng. Þar sé yfirmönnum heimilt að sjá sakavottorð, með leyfi umsækjandans. „Yfirmenn eiga að vera það klárir að þeir sjái fólk út. Það á að vera nóg," segir Mörður.

Einnig er lagt til í frumvarpinu að þeir sem fengið hafa fíkniefnadóma fái ekki vinnu við æskulýðsstörf. Merði finnst afar undarlegt að sá hópur sé tekinn sérstaklega út hvað það varðar, en ekki til að mynda þeir sem fengið hafa dóma fyrir morð eða nauðgun. Þeir sem eigi fortíð í fíkniefnaheiminum séu líka í mörgum tilvikum vel til þess fallnir að fræða æskuna um þá vá sem honum fylgi, eins og mörg dæmi sanni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×