Erlent

Óttast um afdrif nashyrninga

Svartur nashyrningur Óttast er að veiðiþjófar hafi útrýmt svörtum vestur­afrískum nashyrningum.
Svartur nashyrningur Óttast er að veiðiþjófar hafi útrýmt svörtum vestur­afrískum nashyrningum. MYND/nordicphotos/afp

Vísindamenn telja að búið sé að útrýma svörtum nashyrningum í Vestur-Afríku, en margar tegundir nashyrninga standa ákaflega höllum fæti vegna aðgerða veiðiþjófa. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Í leiðangri dýraverndunarsamtakanna IUCN fyrr á þessu ári til seinustu þekktu heimkynna nashyrninganna í Vestur-Afríku, í Kamerún, fundu leiðangursmenn engin merki um lifandi dýr, en hins vegar fjölmörg ummerki eftir veiðiþjófa, hefur BBC eftir Richard Emslie, talsmanni IUCN.

Árið 2002 töldu sérfræðingar að eingöngu tíu svartir nashyrningar væru enn á lífi í Kamerún, en þeir voru dreifðir yfir stórt svæði sem gerði skepnunum erfiðara fyrir að eignast afkvæmi.

Seinustu 150 ár hefur nashyrningum fækkað mjög í Afríku vegna veiðiþjófnaðar. Hefur hvítum nashyrningum í Norður-Afríku verið nær útrýmt, en talið er að eingöngu fjögur dýr séu eftir af þeim stofni.

Hins vegar hafa varnaraðgerðir yfirvalda á síðustu árum gegn veiðiþjófum í Austur- og Suður-Afríku lánast vel, og þar fjölgar bæði hvítum og svörtum nashyrningum. Sérstaklega hefur tekist vel til með hvíta nashyrninga í Suður-Afríku, en þeim hefur fjölgað úr 30 dýrum árið 1895 í nær 15.000 dýr nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×