Innlent

Vildu fresta afgreiðslu RÚV-frumvarps vegna nýrra upplýsinga

MYND/GVA

Stjórnarandstæðingar kröfðust þess á Alþingi í dag að afgreiðslu á bæði frumvarpi um Ríkisútvarpið og um eignarhald á fjölmiðlum yrði frestað fram á haust og þau rædd í samhengi vegna athugasemda fræðimanna við þau. Stjórnarliðar sögðu hins vegar enga ástæðu til þess enda hefði þegar verið haft mikið samráð við stjórnarandstöðu vegna beggja frumvarpa.

Mörður Árnason kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar. Hann trekaði boð stjórnarandstöðunnar um að fresta afgreiðslu frumvarps um hlutafélagavæðingu RÚV í ljósi nýrra upplýsinga í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið. Vísaði hann til orða Sigurðar Líndals, fyrrverandi lagaprófessors, sem efaðist um að það stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að undanskilja hlutafélag um Ríkisútvarpið reglum, sem takmarka eignarhald á fjölmiðlum.

Sigurður kom á fund menntamálanefndar í morgun og þá lýsti hann því yfir að honum hefði ekki verið kunnugt um breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu á þá leið að RÚV væri óheimilt að eiga hlut í öðrum fyrirtækjum sem stæðu í fjölmiðlarekstri. Mörður sagði ákvæði þar að lútandi hafa verið bætt inn í fjölmiðlafrumvarpið í gær og það bæri vott um vond vinnubrögð. Því ætti að fresta afgreiðslu RÚV-frumvarpsins.

Formaður menntamálanefndar sagði ekkert nýtt hafa komið fram sem leiddi til þess að fresta þyrfti afgreiðslu RÚV-frumvarpsins. Breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu tækju af allan vafa um Ríkisútvarpið. Hann vísaði til álits Páls Hreinssonar lagaprófessors, formanns fjölmiðlanefndarinnar sem hefði talið að stoppað hefði verið upp í þann lekja sem hugsanlega hefði verið gagnvart jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Stjórnarandstæðingar bentu þá á að áfram yrði ófriður um málið vegna málaferla tengdum lögum um RÚV og eignarhald fjölmiðla. Mörður sagði að það væri væntanlega það sem menn vildu til þess að sölumönnunum Sigurði Kára Kristjánssyni og Birgi Ármannssyni tækist að lokum að eyðileggja Ríkisútvarpið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×