Innlent

Læknafélagið vill endubætur á vegum

Umferð á Vesturlandsvegi.
Umferð á Vesturlandsvegi. MYND/GVA

Stjórn Læknafélags Íslands telur brýnt að gerðar verði viðunandi endurbætur á fjölförnum vegum við þéttbýli eins og þeim sem mesta umferð bera við höfuðborgina. Stjórnin telur sannað að úreltir vegir séu ástæða slysa sem orðið hafa á vegum landsins. Hún telur þó rétt að minna á að flest slys megi forðast með varlegum akstri og réttri notkun öryggisbúnaðar.

Ályktun stjórnar Læknafélags Íslands vegna tíðra umferðarslysa og mannskaða:

„ Stjórn Læknafélags Íslands harmar hin tíðu umferðarslys og mannskaða, sem orðið hafa á vegum landsins. Stjórn LÍ telur fullsannað, að veigamikil ástæða þessara slysa séu úreltir vegir fyrir þá umferð, sem á þá hefur verið hleypt.

Stjórn LÍ telur þess vegna brýnt að gerðar verði viðunandi endurbætur á þeim vegum, sem mesta umferð bera út frá höfuðborginni og öðrum þéttbýlisstöðum. Stjórn LÍ telur að það álitaefni, að hið opinbera stuðli að endurreisn vöruflutninga á sjó, geti skipt máli við slysavarnir á landi.

Umræðan um endurbætur á samgöngumannvirkjum má þó ekki draga athyglina frá þeirri staðreynd, að flest slys má forðast með varlegum akstri og réttri notkun öryggisbúnaðar í bílum. Of hraður akstur og framúrakstur þar sem umferðarlög eru brotin eru glæpur, sem endað getur með manndrápi eða örkumlum annarra. Gera verður lögreglu og almenningi betur kleift að upplýsa glæpi af þessu tagi.

Stjórn LÍ ítrekar samþykkt aðalfundar Læknafélags Íslands frá 1971 um að ökuleyfisaldur á Íslandi verði hækkaður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×